Ingunn Elísabet Hreinsdóttir
Kennir skapandi dans og nútímalistdans
Ég heiti Ingunn Elísabet Hreinsdóttir og er að byrja mitt annað ár í meistarnámi í listkennslu við Listaháskóla Íslands. Nám í listkennslu miðar að því að mennta listafólk til kennslu ásamt því að efla með því færni og fræðilegan grunn til að miðla þekkingu sinni á ólíkum vettvangi. Nemendur sem stunda nám í listkennslu einbeita sér að sérgrein sinni og í mínu tilfelli er það nútímadans.
Ég lauk B.A. prófi í nútímadanskennslu við Stockholm University of the Arts, Dans och Cirkushögskolan, í Stokkhólmi 2018. Samhliða því lauk ég B.Ed. prófi í kennarafræðum með kjörsviðið tónlist, leiklist, dans frá Háskólanum á Akureyri. Dansnámið hefur svo sannarlega kennt mér margt enda hefur það heildræn áhrif á einstaklinginn en hann lærir ekki eingöngu um dansinn heldur um heiminn, listina og sjálfið.
Það að búa að heilbrigðu líferni, skapandi og gagnrýnni hugsun, lausnamiðaðri nálgun og að geta unnið náið með öðrum einstaklingi eru góðir kostir til þess að taka meðferðis áfram út í hinn stóra heim, sama hvort um er að ræða dansheiminn eða einhvern allt annan heim sem verður fyrir valinu. Ekki má gleyma því að dansinn eflir frumkvæði, sjálfsöryggi þar sem nemendur fá að tjá og túlka skoðanir sínar og tilfinningar með líkamstjáningu. Ég mun leggja áherslu á þessa ólíku þætti í kennslunni með mismunandi kennsluaðferðum.
